KVENNABLAÐIÐ

Ketóvænar bollur fyrir bolludaginn! – Uppskrift

Nú styttist heldur betur í bolludaginn. Rjómi, sultur og bollur verða hvert sem litið er og fara ofan í alla maga þar til fólk veltur um. Það er allavega þannig í árlegu bolludagsboði foreldra minna. Mamma bakar yfir hundrað vatnsdeigsbollur og pabbi fer í bakaríið og kaupir álíka mikið (ok… kannski ekki alveg svo mikið en samt fullt) Ættingjar koma og safnast saman og úr verður ein stór veisla.

Auglýsing

Ég sjálf er voða lítið fyrir bollur. Finnst mömmubollur bestar. Bakarísbollurnar eru bara einum of. Sykursjokkið gerir bara út af við mig.

Svo er til fólk eins og ég sem reynir að taka út hveiti og/eða glúten úr mataræðinu og þá er gott að eiga eina svona uppskrift ofan í skúffu/í tölvunni/eða í bók. Þetta er uppskrift sem ég fékk að láni frá vinkonu minni, Þórunni Berndsen, og hef aðeins breytt.

Hún sló vel í gegn í fyrra svo það er um að gera að leyfa henni að njóta sín aftur í ár.

Auglýsing

vatnsdeigsbolla

Vatnsdeigsbollur

-125 g smjör

-250 ml vatn

-40 g kókoshveiti

-4 lítil egg eða 3 stór

-1tsk xhantan gum

-15 dropar bragðlaus eða vanillu stevía

Smjör og vatn er sett saman í pott og hitað. Kókoshveiti bætt við þegar smjör er bráðnað og hrært vel saman við. Xhantan gum bætt við og enn og aftur blandið vel. Setjið í skál og látið kólna. Bætið við eggjum, eitt í einu og hrærið saman við deigið. Í lokin er stevíunni bætt við.

Notið skeið til að setja deig á bökunarpappír sem er á bökunarplötu. Bakið með blæstri á 190 gráður í ca 30 mínútur.

Hægt er að bræða sykurlaust súkkulaði og setja yfir bollurnar eða búa til glassúr úr vatni, sukrin melis og ósykruðu kakódufti.

Uppskriftin birtist fyrst á Kvennablaðinu

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!