KVENNABLAÐIÐ

BUGL bjargaði fjölskyldulífi okkar, dóttur okkar og framtíð hennar

Bréfritari óskar nafnleyndar: Dóttir mín er 19 ára í dag. Þegar hún byrjaði hjá dagmömmu fóru að koma upp vandamál tengd hegðun hennar. Hún var erfið í samskiptum við önnur börn og hlýddi engu sem dagmamman sagði henni að gera. Fljótlega fengum við faðir hennar tíðar hringingar þar sem að okkur var tilkynnt um það að hún væri að slá önnur börn í vistinni og svo átti hún það líka til að bíta þau. Foreldrar annarra barna voru afar ósátt við það, enda skilur maður það vel ef barnið manns kemur heim með bitsár frá öðru barni.

Auglýsing

Á endanum réð dagmamman ekki við að hafa dóttur okkar lengur en við fengum sem betur fer fljótt inn á leikskóla en því miður var þar sama sagan, samskipti hennar, bæði við starfsfólkið og hina krakkana var slæmt og það var mikið kvartað undan henni.

Við ákváðum þá að fara með hana til sálfræðings og í gegnum aðrar meðferðir til að hjálpa henni með sína líðan sem og samskipti hennar við annað fólk og önnur börn. Því miður breyttist fátt og dóttir okkar var stöðugt að lenda upp á kant við allt og alla og við vorum handviss um að það væri eitthvað að hjá henni sem orsakaði slíka hegðun. Hún hafði bara átt gott líf og hafði ekki orðið fyrir neinum áföllum sem gátu orsakað slíka hegðun. Þarna var hún komin með stuðning í leikskólanum og var í raun „vöktuð” af starfsmanni.

Skólagangan var eins – hún átti erfitt með að eignast vini og líklegast hefur það verið að miklu leiti vegna þess að önnur börn forðuðust að vera nálægt henni. Skólinn vann mikið með okkur í hennar málum og bæði við foreldrarnir sem og starfsfólk skólans sem hún var í reyndum að gera okkar besta en ekkert breyttist.

Auglýsing

Við ákváðum í samvinnu við sálfræðing og skólann að sækja um á BUGL, barna- og unglingageðdeild. Það var löng bið og erfitt fyrir okkur að takast á við hennar vandamál á meðan við biðum þess að hún kæmist að í meðferð á BUGL. Við byrjuðum þá að fara í viðtöl og síðar í innlögn á daginn þá fórum við með hana um morguninn og komum að sækja hana um miðjan dag. Þar gekk hún í skóla og við sátum marga fundi með starfsfólki BUGL sem veitti henni – að okkur fannst – bestu þjónustu sem hún gat fengið og okkur foreldrum hennar líka.

Dóttir okkar var greind með einhverfu, hún var líka greind með ADHD sem og aðrar greiningar og þarna vorum við loksinns komin með svarið við því hvað hafði amað að barninu okkar öll þessi ár. Á BUGL var tekin ákvörðun um að setja hana á viðeigandi lyf, hún var látin halda áfram í nokkra mánuði á BUGL en þá mættum við í viðtöl og til sálfræðings með henni og hún ein líka. BUGL bjargaði fjölskyldulífinu okkar, dóttur okkar og framtíð hennar. Að hún hafi fengið viðeigandi þjónustu og lyf sem hentuðu hennar veikindum gerði kraftaverk bæði fyrir hana og okkur foreldra hennar sem vorum orðin langþreytt og full af sektarkennd yfir því að okkur fannst eins og eitthvað væri okkur að kenna.

Í dag líður henni vel og samband okkar hefur aldrei verið betra hún er hamingjusöm, vinamörg stundar sinn skóla og er í íþróttum. Stundum er það þannig að þegar það hefur verið gert margt til að aðstoða einstakling með andleg veikindi þá þarf líka að taka til þeirra ráða að gefa lyf eins og í hennar tilfelli. Þó svo að umræðan hafi stundum verið fordómafull í garð lyfja verðum við samt að muna að sumir þurfa lyf til þess að lifa eðlilega og fúnkera eins og hinir.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!