KVENNABLAÐIÐ

Jóhann ætlar að stofna áfangaheimili fyrir fíkla þar sem trúarbrögð eru ekki í forgrunni

Jóhann Karl Hallsson er ungur maður sem er edrú í dag og þráir ekkert heitar en að verða öðrum víti til varnaðar og hjálpa ungum fíklum sem eru að ná sér upp úr fíkniefnaneyslu. Margt ungt fólk hefur látið lífið að óþörfu og vill hann leggja sitt á vogarskálarnar. Leitar hann á náðir Karolina Fund sem hópfjármagnar verkefni á borð við þetta. Um er að ræða áfangaheimilið Fossinn sem hann vill stofna fyrir karlmenn á aldrinum 18-29 ára. Ef vel gengur vill hann stofna annað heimili fyrir konur.

Aðspurður fékk Jóhann Karl hugmyndina eftir að hafa heyrt sögur um slæm áfangaheimili en einnig eftir að hafa misst marga vini í neysluheim eða í alkóhólisma.

Auglýsing

Varðandi guðshugmyndina segir Jóhann: „Ég vissi af því að mikið fólk væri ekki að finna sig í AA samtökunum eða að fíla að vera bara alltaf bent á guð og 12 sporin sem lausn. Svo þar kom strax smá hugmynd á að skapa eitthvað nýtt. Ég myndi segja að aðalhvatinn væri að bjarga lífum og en ég veit af því að það er langur biðlisti í meðferð. Mig langar virkilega að geta hjálpað eða skapað heimili sem getur hjálpað þeim einstaklingum sem vilja fóta sig í lífinu aftur.“

Á Karolina Fund um verkefnið segir:

FOSSINN

Áfangaheimilið Fossinn er hugmynd sem ég er með að áfangaheimili fyrir karlmenn á aldrinum 18-29 ára.

Mikið hefur verið fjallað um þá sorglegu staðreynd að ungir fíklar látast í tugatali, (27 manns undir yngri en 39 ára létust 2016,14 manns létust undir þrítugu og 32 manns undir fertugu árið 2017,og yfir 27 manns undir 39 ára létust 2018 en allt hafði þetta fólk farið í meðferð hjá SÁÁ) og aldrei hefur biðlisti eftir því að komast í meðferð verið hærri en nú.

Sá sem skrifar þetta og dreymir um að stofna áfangaheimilið þekkir sjálfur vel til alkóhólisma og hefur þurft að kveðja marga góða vini vegna fíknisjúkdóma.

Auglýsing

Áfangaheimilið Fossinn langar að tileinka minningu Davíðs Egilssonar, Bjarna Guðmundssonar og Ingólfs Bjarna Kristinssonar. Vina minna sem ég kvaddi allt of snemma út af þessum sjúkdómi.

NÝJUNGAR

Þegar ég var ungur fór ég reglulega í sveitina hans afa á bæ sem heitir Fagribær. Þar lærði ég gömul gildi og hvað það er hollt og gott að vera úti og hreyfa sig. Ég fór líka stuttlega í sveit á Reykhólum og lærði hvað það er rosalega gott að vera í öflugri rútínu. Eins og að vakna alltaf
snemma – meira segja um helgar.

Fossinn myndi sameina ný meðferðarúrræði eins og hugræna atferlismeðferð í bland við reglulega hreyfingu sem allir heimilismenn yrðu hvattir til að stunda.
Fossinn myndi einblína á lausnir sem hafa annars staðar gefið góða raun til að laga andlega vanlíðan, eins og hreyfingu og hugleiðslu sem sannað hefur verið að bæti ýmislegt eins og þunglyndi eða kvíða.

ÓÞARFI AÐ IÐKA TRÚARBRÖGÐ

Mörg áfangaheimili leggja ofuráherslu á að heimilismenn stundi samkomur þar sem fólk kemur saman og lofar guð eða æðri mátt. Hverjum og einum yrði frjálst að sækja þann styrk sem þau þurfa þangað sem þau kjósa.

Hér yrði sennilega brotið nýtt blað í sögu meðhöndlunar alkóhólisma á Íslandi en algengasta lausnin hingað til hefur verið að benda á AA samtökin eða guð sem mörgum fíklum hefur fundist fráhrindandi við meðferð á sínum fíknisjúkdómi.

Hræðsluáróður er algengur í meðferðarúrræðum annars staðar að mati fíkla og mun Fossinn ekki styðjast við slíkar aðferðir. Ég tel að margir fíklar og alkóhólistar verði verr haldnir af kvíða vegna þeirrar gríðarlegu pressu sem sett er á þá að klára sporin í AA samtökunum eða finna Guð.
Sumir fíklar hafa kvartað undan því að líða verr eftir sum sporin í AA samtökunum enda er verið að kryfja oft alla atburði í ævi fíkilsins og held ég að ekki allir séu tilbúnir í það, né að það geri alltaf gott.

Fossinn leggur því áherslu á að bataferlið sé á þeim hraða sem fíkillinn treystir sér í og verður umburðarlyndi lykilatriði í bataferlinu.

LIST

Vistmönnum verður gefið færi og hvattir til listsköpunar, hvort sem það er að búa til tónlist, myndlist eða eitthvað annað.

DROPINN

Á sama tíma og þetta áfangaheimili yrði sett á fót myndi ég vilja stofna ný samtök sem myndi kallast Dropinn.
Þar yrði eina skilyrði samtakanna löngun til að hætta að drekka og þar gæti fólk hitt annað fólk í sömu sporum og stutt hvort annað án þess þó að þurfa að finna sér Guð, eða vinna sporin eins og í AA samtökunum.

VIKUÁÆTLUN

Fossinn leggur áherslu á að heimilismenn myndu gera vikuáætlun þar sem ljóst væri hvað væri til stefnu á hverjum degi fyrir sig fyrir utan helgar.

VERTU MEÐ

Vertu með og styddu mig í hugmynd minni. Eftir að ég hef komið þessu á fót hef ég fulla trú á að geta látið heimilið reka sig og að ég geti jafnvel stofnað annað heimili í framtíðinni. Peningurinn myndi fara í að leigja húsnæði, borga starfsmönnum og reka heimilið þangað til það færi að reka sig sjálft.
Tíminn sem líður eftir meðferð er lokið er gríðarlega mikilvægur í lífi fíkils eða alkóhólista. Fossinn gæti verið það sem bjargar og býr til öfluga manneskju í samfélaginu með mögulegum keðjuáhrifum á aðra sem glíma við fíknisjúkdóma. Rísum upp og gerum eitthvað áður en það verður of seint.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!