KVENNABLAÐIÐ

Þurfti að skilja fárveikan fíkil eftir úti á götu því ekki var um nein úrræði að ræða

Maria Ericsdóttir skrifar: Í kvöld skildi ég sársjúka manneskju eftir úti. Hún var í grænni peysu. – Ég átti fund á Te og Kaffi í Borgartúninu og tók eftir því að kona sem stóð við afgreiðsluborðið hafði misst fullt af miðum úr vasanum. Hún sat á gólfinu og var í þann veginn að týna þá upp. Þetta var ekki alveg venjulegt af því að hun komst ekki auðveldlega upp og við sem vorum að funda tókum eftir þessu og að hún átti ekki pening og fékk vatn. Hún settist síðan skammt frá okkur og við tókum eftir því að hún var greinilega á lyfjum eða undir áhrifum einhvers. Augum rúlluðu, það var eitthvað mikið að.

Auglýsing

Þar sem hún hafði fengið sér sæti héldum við fundinum áfram. Stuttu áður en kaffihúsið lokaði ætlaði ég að fara og sækja krakkana úr fimleikum. Ég staldraði við hjá konunni af því að hún stóð hjá hurðinni og var grátandi. Ég spurði hvort ég gæti eitthvað hjálpað. Hún grét bara og sagðist þurfa að hringja því hún ætlaði að hitta mann sem myndi hjálpa henni. Svo grét hún aftur. Átti erfitt með að sjá mig. Sagðist ekki vilja hitta hann, en að hún yrði það til að geta fengið pening til að fara til Svíþjóðar.

Mér leist nú ekki á blikuna en einhvern veginn náði að spyrja frekar beinskeytt, hvað væri í gangi. Það var sem ég óttaðist, hún var í neyslu og hefði týnt símanum en þurfti að hringja í mann sem ætlaði að borga henni svo að hún gæti fengið morfín og safnað fyrir að fara í meðferð í Svíþjóð. Ég spurði nánar út í manninn. Ég vildi ekki heyra svarið. Munnmök. Hana langaði auðvitað ekki sagði hún, en að þetta væri daglegt og að þetta væri eina leiðin.

Ég sagðist vilja hjálpa og bað hana að bíða aðeins. Ég fór aðeins frá henni og hringdi í lögregluna. Hún spurði hvert ég væri að hringja. Ég sagði að ég væri að leita ráða fyrir vinkonu. Ég spurði hvert ég gæti farið með stelpuna. Hann sagði mér að fara í konuathvarfið. Svo ég hringdi þangað. Konan sem svaraði sagði mér að hringja í frú Ragnheiði (fíklabílinn).

fru ragnheiður

Frú Ragnheiður (mynd: Rauði krossinn)

Núna varð ég að fara að sækja börnin sem myndu standa úti eftir örfáar mínútur. Svo ég fór til Dóru [ekki hennar rétta nafn, innsk. blm] og sagði henni að ég myndi vilja hjálpa en að ég þyrfti að sækja börnin og því gæti hún komið með mér fyrst að kaffihúsið væri að loka. Síðan myndi ég keyra henni á betri stað á eftir.

Auglýsing

Hún grét mikið, var taugaóstyrk, og vildi hringja til mannsins, en mér fannst það ókostur. Á endanum kom hún með mér. Ég keyrði til fimleikafélagsins sem var ekki langt í burtu. Dóra sagði mér að hún ætti tvö börn. Hún var stressuð og vildi ekki fá fráhvörfseinkenni. Sagði að þau væru að koma, jafnvel byrjuð og að nú yrði hún að fá lyf.

Eg talaði rólega næstum því alla leiðina og sagði henni að ég væri meðvituð um hvað henni liði illa, þó að ég vissi ekki hvernig það væri og að ég þyrfti að læra hvernig ég gæti hjálpað henni. Rétt áður en að krakkarnir komu inn í bílinn þurrkaði hún augun og kinnarnar með höndunum. Ég sá hvað fingurnir voru dökkir og skítugir.

Ég hugsaði, þarna er íslensk kona, yngri en ég, sem talar við mig fallega, alveg gríðarlega illa stödd, auðvitað myndi ég hjálpa henni. Hún heilsaði börnunum fallega, reyndi mikið á sig. Ég sagðist ætla að keyra þau heim og svo myndi ég hjálpa henni. Hún sofnaði örlítið. Sem betur fer. Á meðan hringdi ég í númerið sem ég hafði fengið. Ég útskýrði eins vel og ég gat. Maðurinn sagði mér að þau gætu litið gert nema að hún vildi fara í meðferð.

Ég sagði að svo væri. En það er ekki hægt, sagði hann. Það er allt fullt. Ok, hvað gerum við þá, segi ég. Við getum farið í athvarfið. 20 mín seinna, hafði ég skilað börnunum og keyrt niður í Borgartúnið aftur þar sem ég ætlaði að hitta fíklabílinn. Ég hafði stöðvað bílinn og hún svaf ennþá. Ég var með krampa í fætinum  svo ég sleppti aðeins bremsuna og þá rann bílinn örlítið fram. Hún vaknaði. Hún varð strax hrædd og vildi hringja.

Rétt í þessu kom hjúkrunarkona úr bílnum frú Ragnheiði. Hún hallaði sér upp að bílglugganum mín megin og heilsaði rólega og fallega. Dóra vildi ekki fara með henni því hún var byrjuð að finna verulega fyrir einkennum. Hjúkrunarkonan sagði mér að einkennin væru svo hræðileg i morfíninu að fólk getur ekki hugsað sér það.

Dóra fór inn og út úr bílnum, grét mikið, var farin að froðufella. Ég spurði hvað væri til ráða? Ekkert. Var svarið. Það ef enginn staður. Hún kemst ekki inn á Vog. Hún kemst hvergi. Ég vissi það að ég gæti ekki tekið hana heim, hún myndi ekki halda neinu, ekki saur, engu. Myndi verða fárveik. Hún hafði sagt það sjálf, áðan. Ég bað hana ítrekað um að fara á hvarfið. Bara í eina nótt. Sagðist sækja hana í fyrramálið.

Áttu fjölskyldu, hafði ég spurt áður. Hefurðu prófað að fara í meðferð? Hvað hefurðu verið í neyslu lengi? Ég hafði spurt um margt, en svarið var bara, ég get ekki fengið fráhvörf. Get ég farið með hana á slysó? Nei. En hún sagðist þurfa aðstoð, myndi frekar deyja en að takast á við fráhvörfin. Ég horfi á hjúkrunarfræðinginn. Hún verður að fá aðstoð, segi ég. Já, en hún verður að vilja það, er svarið. Já, en hún vill það segi ég, en hún getur ekki tekist á við nóttina og fengið hjálp seinna. Hún þarf að fá hjálp núna.

inje3

Hún horfir á mig og skilur mig, segir, já, ég veit, en það er ekki til. Þetta sjáum við aftur og aftur. Við erum sjálfboðaliðar. Við sjáum þetta. Svona fór þetta á milli okkar nokkrum sinnum. Á meðan fór Dóra úr bílnum. Hún stendur úti og ráfar í burtu. Ég get ekkert gert. Ég segi, ætlið þið að keyra á eftir henni? Hun svaf úti síðastliðnanótt. Hún er í verra ásigkomulagi núna. Ætliði að finna hana?

Nú eru þau tvö, í rauðum rauða-kross peysum fyrir utan gluggann minn, og ég sit ennþá í bílnum. Við erum með langan lista, segja þau, við förum á næsta stað.

Auglýsing

Ég skil Dóru eftir. Símalausa. Ég veit ekki hvar hún er. Kannski úti. Eins og í gær. Það er vindur. Er hún fáránlega veik einhversstaðar? Hefði hún verið köttur hefði ég tekið hana heim. En þetta er persóna, og ég lét hana fara. Ég ligg í rúminu. Hringdi aftur í Vog. Fékk aftur símsvara. Fór inn á vefsvæðið SÁÁ til að finna upplýsingar um hver skipulagði söfnunina í gær. Einhver contact. Eitthvað. Ég fann þennan lista. Hér er hægt að safna undirskriftum.

akall

Ég lét manneskju frá mér fara, fárveika, eina, út í kuldann í peysu. Hún gat varla haldið augunum opnum. Hún froðufelldi. Hún er úti núna.

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!