KVENNABLAÐIÐ

Engum datt í hug að vinkona mín væri dottin í svartnættið

Lísa Björk Valgerður Saga skrifar um erfitt málefni sem snertir marga: Það myndi gleðja mig ef þið læsuð þetta og gæfuð ykkur tíma til að setjast niður og ýta til hliðar ykkar daglega lífi og hugsunum, jafnvel fordómum eða þekkingarleysi. Þetta er nefnilega einlæglega það sem ég upplifði í dag og á meðan ég þakka almættinu fyrir að ekki fór sem hefði getað farið – þá er mér alvarlega brugðið, hrædd.

Auglýsing

Ég er svo heppin að eiga margar yndislegar vinkonur (og vini). Við erum ekki öll svo lánsöm að flokkast undir „normið“ og sum okkar hafa djöful að draga. Af þessum hópi glímir fólk við alvarlega sjúkdóma. Já, ég þekki fólk sem glímir við krabbamein og það efast enginn um alvarleika þess sjúkdóms. En ég þekki líka fólk sem glímir við þunglyndi og fæstir taka því mjög alvarlega. Sem er vanþekking af hæstu stærðargráðu.

Í dag hafði ég samband við vinkonu mína – sem er mér mjög kær. Ég vissi ekki betur en að allt væri í himnalagi. Það er ekkert mjög langt síðan ég heyrði í henni og þá upplifði ég hana hamingjusama og glaða. Allt virtist vera að ganga upp hjá henni og ég var svo ánægð.

Auglýsing

Við spjölluðum smá um daginn og veginn en svo kom smá þögn. Hún sagði: „Lísa, það munaði svo litlu að tæki líf mitt um daginn“. Mér brá alveg svakalega – það síðasta sem ég átti von á að heyra. Hún hélt áfram: „Ég datt niður í svarnættið – ég planaði þetta og hugsaði varla annað í tvær vikur. Þetta var útpælt. Þrátt fyrir þá sem ég elska svo mikið þá fékk eitthvað mig til að trúa að þeim væri betur borgið án mín“.

Tárin fóru að streyma niður kinnarnar því ég veit að hún hefur glímt við svo erfitt þunglyndi svo lengi, en alltaf barist. Ég þekki alveg þunglyndi og hvað það getur bugað mann. En ég hélt að hún væri á góðum stað.

„Lísa, ég veit ekki hvað varð til þess að ég sagði manneskju frá þessum hugleiðingum og það bjargaði mér. Ég ætlaði ekki að gera það. Ég ætlaði bara að deyja……“

Í þetta skiptið vöktu yfir henni góðir vættir en það munaði svo litlu, svo litlu. Engum og þá meina ég ENGUM datt til hugar að hún væri í svartnættinu. Það er svo vel falið, þetta svartnætti. Þess utan taka fæstir því alvarlega. Þunglyndi! – Aumingjaskapur hugsa svo margir.

Auglýsing

En þetta er allt annað en aumingjaskapur. Þetta er lífshættulegur alvarlegur sjúkdómur. Lífshættulegur mest vegna þess að fólk hunsar hann og annast ekki þann sjúka þegar hann dettur í svartnættið og sá sjúki felur það – skömm.

Ég er þakklát fyrir að eiga vinkonu mína ennþá. Hlakka til að hitta hana og knúsa hana. Þakklát fyrir að hún hafi sagt mér þetta svo ég sofni ekki á verðinum.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!