KVENNABLAÐIÐ

Hvað er heilabilun?

Heilabilun er heilkenni sjúkdóma í heila sem leggjast einkum á aldrað fólk, en dæmi eru um að fólk á fertugs- og fimmtugsaldri fái þessa sjúkdóma. Heilabilun einkennist af skerðingu á vitrænni starfsemi í það miklum mæli að áhrifa gætir í daglegri virkni og félagslgeum tengslum einstaklingsins.

Einkenni
Einkenni heilabilunar eru fyrst og fremst minnistap, erfiðleikar einstaklingsins við að átta sig á umhverfi, tjá sig eða skilja aðra og framkvæma ýmsar athafnir daglegs lífs, svo sem að klæðast, borða og snyrta sig. Einnig geta komið fram breytingar á persónuleika og tilfinningalífi ásamt líkamlegum einkennum.

Auglýsing

Heilabilun er að jafnaði stigvaxandi sjúkdómur þar sem einkenni verða meiri og alvarlegri með tímanum. Þróun einkenna og hversu hratt þau aukast er þó einstaklingsbundið. Þrátt fyrir breytinleika í þróun einkenna er heilabilun yfirleitt skipt í þrjú stig. Hafa ber þó í huga að þessi skipting er gróf og stigin skarast.

Fyrsta stigið (væg heilabilun) einkennist af mildum einkennum, s.s. rugli, minnistapi, skertri áttun þannig að einstaklingurinn getur villst í þekktu umhverfi, erfiðleikum við vanabundin verk og breytingum á persónuleika og dómgreind. Önnur algeng einkenni eru framtaksleysi, skert einbeiting og minnkuð geta til að takast á við mótlæti. Á þessu stigi getur einstaklingurinn sjálfur verið meðvitaður um einkennin, en algengara er að maki eða vinnuveitandi veiti þeim eftirtekt. Persónuleikabreytingin er sá þáttur heilabilunar sem ættingjar eiga hvað erfiðast með að sætta sig við. Þunglyndi og kvíði eru algeng viðbrögð sjúklings þegar hann verður var við vangetu sína. Ómeðhöndlað þunglyndi og kvíði ýkja sjúkdómsmynd heilabilunar.

Á öðru stigi (miðlungs heilabilun) koma fram erfiðleikar við athafnir daglegs lífs, s.s. við að matast og fara í bað, kvíði, tortryggni, óróleiki, svefntruflanir, ráp og sjúklingurinn getur átt erfitt með að þekkja fjölskyldu sína og vini. Þá getur borið á ofskynjunum, rangtúlkunum og auknum skapsveiflum. Á þessu stigi eru fæstir sjúklinganna meðvitaðir um einkennin og neita jafnvel tilvist þeirra, þar sem dómgreind og hæfni til rökfærslu er skert.

Þriðja stigið (alvarleg heilabilun) einkennist af alvarlegum einkennum eins og skerðingu eða algjöru tapi á tjáningargetu, skertri hreyfigetu, lystarleysi og þyngdartapi og truflun á blöðru- og þarmastarfsemi. Sjúklingur getur að lokum orðið algerlega háður umönnun annarra.

Líflíkur eftir að fyrstu einkenni sjúkdómsins koma fram eru breytilegar eða frá fjórum árum til tuttugu, en meðallífslíkur eru um það bil tíu ár.

Tíðni
Alzheimiersjúkdómur er algengastur þeirra sjúkdóma sem valda heilabilun meðal aldraðra og er talinn orsaka um 55-60% tilfella. Sjúkdómar í blóðrás heilans orsaka um það bil 25% og eftirstöðvarnar, 15-20% tilfella, eru af öðrum orsökum og lækning í sumum tilfellum möguleg. Stundum geta orsakir verið tvær og þá er algengast sambland Alzheimersjúkdóms og blóðrásatruflana.

Menn greinir á um tíðni heilabilunar. Flestar kannanir hafa fundið 25-35% tíðni allra tegunda heilabilunar meðal 85 ára og eldri. Hins vegar sýna allar niðurstöður rannsókna skýrt að tíðni sjúkdómsins eykst með hækkandi aldri. Eftir að 65 ára aldri er náð tvöfaldast tíðni sjúkdómsins á hverjum 5 árum upp að 85 ára aldri en eykst hægar eftir það, óháð því hvernig rannsóknaraðilar skilgreina heilabilun eða Alzheimersjúkdóm. Það er því ljóst að um leið og öldruðum í samfélagi þjóðanna fer fjölgandi, einkum háöldruðum, eykst fjöldi einstaklinga með heilabilun.

Auglýsing

Orsakir
Orsakir Alzheimersjúkdóms eru ekki kunnar en umfangsmiklar rannsóknir fara fram á þessu sviði. Rannsóknir síðustu ára hafa leitt í ljós röskun á myndun eða nýtingu boðefna í heila ásamt breytingum í byggingu heilafrumna og útfellingar sem hindra eðlilega starfsemi þeirra. Við eðlilega öldrun koma fram breytingar í hlutum heilans, svo sem breytt próteininnihald í taugafrumum og hrörnun taugafrumna, sem mynda ör. Þessar öldrunarbreytingar eru mun meiri og útbreiddari hjá einstaklingum með Alzheimersjúkdóm.

Sennilega finnst engin ein ástæða fyrir Alzheimersjúkdómi heldur munu samverkandi þættir leiða til þróunar hans. Lítill hópur fólks fær Alzheimersjókdóm snemma á ævinni eða á bilinu þrjátíu og fimm til sextíu og fimm ára. Erfðaþættir virðast vera sterkari hjá þessum hópi og börn þeirra, bræður og systur eru í meiri hættu að fá sjúkdóminn en aðrir. Við rannsóknir hafa fundist gölluð gen sem geta verið ástæða þessarar fjölskyldutengdu tegundar sjúkdómsins. Ættingjar þeirra einstaklinga, sem fá sjúkdóminn eftir að sextíu og fimm ára aldri er náð, virðast vera í aðeins aukinni hættu á að fá hann.

Að svo komnu máli hafa einungis fundist tveir greinilegir áhættuþættir Alzheimersjúkdóms, þ.e. aldur og erfðir, eins og áður hefur komið fram. Aðrir áhættuþættir sem enn eru í rannsókn eru höfuðáverkar, kyn og menntun. Þannig hafa sumar rannsóknir leitt í ljós að heilabilun kemur oftar fram hjá einstaklingum sem orðið haf fyrir alvarlegum höfuðáverka einhvern tíma á ævinni. Hlutfall kvenna með heilabilun er hærra en hlutfall karla en þann mismun má að mestu leyti skýra með hærri meðalaldri kvenna en karla. Þá hafa ákveðnar rannsóknir gefið til kynna að aukinni menntun fylgi minni hætta á því að heilabilun þróist hjá einstaklingi síðar á ævinni.

Greining
Nákvæm greining á heilabilun er mjög mikilvæg til að hægt sé að útiloka aðra læknanlega kvilla sem valdið geta röskun á vitrænni starfsemi, s.s. þunglyndi, næringarskort, sérstaklega skort á B-12 vítamíni og fólíni, blóðleysi, aukaverkanir lyfja og fylgikvilla áfengis. Ýmsir aðrir sjúkdómar og líkamlegt ástand geta einnig valdið minnistapi og rugli (t.d. skjaldkirtilssjúkdómur, sykursýki, nýrna- og lifrarvandamál, lungnasjúkdómar, gallsteinar, sárasótt, hár hiti, hægðatregða o.fl.).

Óyggjandi greining á Alzheimersjúkdómi fæst einungis með krufningu. Hins vegar eru um 90% líkur á að greina sjúkdóminn rétt í lifanda lífi. Greining á sjúkdómnum fæst einkum með nákvæmri sjúkrasögu, almennri læknisskoðun, taugalæknisskoðun, taugasálfræðilegri prófun, blóðrannsókn, tölvusneiðmynd af heila (TS-mynd) og blóðflæðiskönnun með ísótóp (SPECT).

Meðferð
Flestar algengustu tegundir heilabilunar eru ólæknandi en hins vegar má draga mjög úr einkennum og fylgikvillum sjúkdómsins með réttri meðferð, stuðningi og fræðslu. Það er því mikilvægt að minnisskert fólk sé undir læknishendi. Flestir sjúklingar með heilabilun búa í heimahúsum og njóta umönnunar maka og barna. Sjúkdómurinn veldur ekki aðeins sjúklingnum miklum þjáningum, heldur eiga aðstandendur og fjölskylda hans oft erfitt með að standast til lengdar, án stuðnings, það álag sem fylgir því að annast sjúkling með heilabilun. Með þekkingu á gangi sjúkdómsins og einkennum er oft hægt að draga úr eða koma í veg fyrir mikla vanlíðan sjúklings, óþolinmæði, kvíða og óöryggi ættingja.

Í umgengni við heilabilaða einstaklinga er mikilvægt að þeir fái að halda sjálfsvirðingu sinni með því að tekið sé tillit til viðhorfa þeirra og að þeir haldi sem lengst sjálfstæði sínu. Draga má úr álagi á sjúklinga með því að forðast röskun á daglegum lifnaðarháttum og venjum og halda röð og reglu í umhverfi. Þetta má m.a. gera með ábendingum, merkingum og myndefni.

Mikilvægt er að aðstandendur leiti upplýsinga og kynni sér hvaða aðstoð stendur til boða, s.s. dagvistun, heimilishjálp, heimahjúkrun, hvíldarinnlögn, réttur til trygginga- og lífeyrisbóta og félagslegrar aðstoðar. Langtímavistun er yfirleitt óhjákvæmileg á lokastigi sjúkdómsins.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!