KVENNABLAÐIÐ

Heimsins fámennasti bær: Aðeins ein manneskja býr í Monowi

Monowi, Nebraskaríki í Bandaríkjunum: Íbúar 1. Samkvæmt þjóðskjölum Bandaríkjanna er Monowi eini bærinn í landinu þar sem aðeins einn íbúi á lögheimili.

Eina manneskjan sem býr í Monowi er Elsie Eiler sem er 84 ára. Hún er bæjarstjórinn, gjaldkerinn, bókavörðurinn, barþjónninn og gegnir mörgum öðrum störfum.  Á hverju ári hengir hún upp skilti á barnum til að auglýsa bæjarstjórakosningarnar og kýs svo sjálfa sig!

Eins og lög gera ráð fyrir þarf hún að sinna ýmsu bókhaldi, sækja um ýmis leyfi og þessháttar til að halda þessum agnarsmáa bæ gangandi. Hún þarf  að greiða sem samsvarar 500.000 ISK á ári til að hafa vatn og rafmagn. Elsie gerir allt til að koma í veg fyrir að Monowi verði draugabær.

Auglýsing

„Þegar ég sæki um vínveitinga – og leyfi til að selja tóbak á hverju ári senda þeir bréf til bæjarritarans, sem er ég. Þannig ég tek við því sem ritarinn, skrifa undir sem gjaldkeri og gef sjálfri mér bréfið sem bareigandi. Ég er hamingjusöm hérna. Hér ólst ég upp og ég veit hvað ég vil,“ segir Elsie í viðtali við BBC.

Á fjórða áratug síðustu aldar var Monowi stoppistaður fyrir Elkhorn járnbrautarsporið og bjuggu þar 150 manns. Þar voru þrjár matvörubúðir, margir veitingastaðir og meira að segja fangelsi. Elsie var alin upp í útjaðri bæjarins og hitti eiginmann sinn Rudy í grunnskóla. Eftir útskrift úr menntaskóla fór Rudy í flugherinn. Þegar hann var í Kóreustríðinu flutti Elsie til Kansas City til að vinna fyrir flugfélag.

„Ég fór að vinna fyrir flugfélagið og átti mér þann draum að verða flugfreyja. Mér þótti lítið til borgarinnar koma, Monowi hafði alltaf verið mitt heimili.“

Elsie og Rudy giftu sig þegar þau voru 19 ára og ólu upp tvö börn í bænum. Árið 1971 ákváðu þau að enduropna krá sem faðir Elsie hafði átt. Þegar þetta gerðist var farið að fækka í bænum litla. Eftir seinni heimsstyrjöldina fór efnahagur fólks versnandi og samfélög hreinlega dóu út í kjarna landsins.

Auglýsing

Árið 1960 var síðasta athöfnin haldin í Monowi og var það jarðarför faðir Elsie. Frá árunum 1967 og 1970 lokaði pósthúsið og síðasta matvöruverslunin. Skólinn lokaði árið 1974. Um miðbik áttunda áratugarins fluttust börn Elsie frá bænum til að leita að vinnu og árið 1980 voru aðeins 18 íbúar í bænum. Tuttugu árum síðar voru Rudy og Elsie einu íbúarnir og svo féll Rudy frá árið 2004, sem skildi Elsie eftir eina.

„Við eigum ábyggilega eitthvert heimsmet,“ segir Elsie kímin í viðtali við Reuters, „Íbúafjöldinn fór niður um 50 prósent!“

Þrátt fyrir að búa ein er Elsie ekki einmana. Sex daga vikunnar opnar hún krána klukkan 9 á morgnana og vinnur í 12 tíma að sinna viðskiptavinum sínum, mörgum sem hún hefur þekkt allt sitt líf.

Að kránni frátaldri er aðeins ein önnur opinber bygging í Monowi – bókasafnið hans Rudy. Síðasta ósk hans var að einkasafn hans yrði að opinberu bókasafni. Hann átti yfir 5000 bækur og tímarit. Elsie er því líka bókavörður. Lykill hangir uppi í kránni fyrir hvern þann sem vill kíkja á bókasafniið.

Að vera heimsins fámennasti bær í 14 ár dregur að fjölda ferðamanna á ári hverju – fólk kemur hvaðanæva að úr heiminum til að skoða þennan forvitnilega bæ og hitta Elsie Eiler og skrifa í gestabókina (eða gestabækurnar sem eru orðnar fjórar, troðfullar!)

Elsie á fimm barnabörn og tvö barnabarnabörn. Sum búa enn í Nebraskaríki en önnur lengst í burtu, nánar tiltekið Hollandi: „Ég vildi ég gæti verið nær börnunum og barnabörnunum og hitta þau oftar. En þá þyrfi ég að kynnast fullt af nýjum vinum. Á meðan ég er hér og get það, er það allt sem ég vil,“ segir þessi magnaða kona.

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!