KVENNABLAÐIÐ

Ég upplifði meira meðgönguþunglyndi en fæðingarþunglyndi

Höfundur óskar nafnleyndar: Ég og kærastinn minn ákváðum að eignast barn. Við vorum búin að vera lengi saman og fundum að rétti tíminn fyrir lítinn erfingja væri kominn. Við reyndum í langan tíma og vorum yfir okkur ánægð þegar það kom jákvætt á óléttuprófinu. Í fyrstu skoðun hjá kvensjúkdóma lækni leit allt vel út ég sá litla baun á skjánum í snemmsónar og ég fann hvað mig hlakkaði til að verða mamma.

Auglýsing

Sambandið okkar var gott, við áttum bæði gott samband við vini og fjölskyldu og stóðum ágætlega fjárhagslega. Mér leið mjög vel og ég var yfir mig hamingjusöm með fallega lífið okkar.

Þegar vikurnar liðu fór mér þó að líða verr og verr.

Ég var alltaf jafn ánægð að vera ófrísk og ég hlakkaði alltaf jafn mikið til að fá ungan minn í hendurnar en mér leið samt illa. Ég var dugleg að tala um hvernig mér leið og reyndi að gera ýmislegt til að laga það en ekkert gerðist. Mér leið illa yfir því að líða svona en ég gat ekkert að því gert.

Ég fékk reglulega að heyra sögur af meðgöngum sem voru dásamlegar…af hverju gat mín meðganga ekki verið þannig? Ég náði ekki að njóta meðgöngunnar ég fjarlægðist vini mína og maka minn. Ég vildi lítið annað gera en að vera heima og hlutir sem mér fannst áhugaverðir og skemmtilegir voru það ekki lengur.

Ég skammaðist mín fyrir að líða svona og fannst ég eiga að vera glöð og hamingjusöm. Ég leitaði huggunar í mat og fór að borða mikið meira en áður. Ég var mjög grátgjörn, það mátti ekkert segja við mig og ég tók öllu sem árás. Ég hætti að sinna sjálfri mér og ég hætti að sinna heimilinu mínu. Ég hætti að sinna sambandinu, ég hætti að sinna öllu.

Auglýsing

Ég var í mæðraskoðun hjá ljósmóður sem ég gat talað við og hún sagði mér að meðgönguþunglyndi væri algengt. Ég hafði samt ekki heyrt mikið um það ég hafði heyrt mikið meira um fæðingarþunglyndi. Hún sagði mér að meðgönguþunglyndi væri mikið minna umtalað en henni fanst vanta meiri umræðu um það. Þegar litla barnið okkar fæddist lagaðist ég til muna og mér leið betur og betur eftir því sem vikurnar liðu.

Leitum okkur hjálpar þegar okkur líður illa. Það er engin skömm að því.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!