KVENNABLAÐIÐ

Ég er þakklát fyrir barnæskuna mína

Alma Rut Ásgeirsdóttir skrifar: Þegar ég var lítil átti ég ekki gsm síma, ég var ekki með internet og notkun á heimasímanum var takmörkuð þar sem að dýrt var að hringja og þó sérstaklega út á land. Vinir mínir mættu heim til mín til þess að spyrja eftir mér og ég heim til þeirra. Stundum þá töluðumst krakkarnir saman í skólanum og ákváðum tíma og stað þar sem við myndum hittast um kvöldið. Þegar ég var lítil þá var mér kennt að vera sjálfstæð, ég var látin taka ábyrgð og mér voru gefin verkefni.

Auglýsing

Ég var dugleg að hjálpa mömmu í einu og öllu, passaði yngri systur mínar og aðstoðaði við þau heimilisstörf sem ég gat og hafði aldur til hverju sinni. Við systur fórum með mömmu að skúra á kvöldin og þar var okkur treyst til verka, þó svo að stundum vorum við ekkert allt of til í að fara með. Ég vann mér inn pening með því að selja fisk, jólakort, nammi og fleira. Safnaði mér fyrir því sem mig langaði í og var dugleg við að selja gamalt dót í Kolaportinu.

barnæska

Þegar ég var lítil þá safnaði ég límmiðum í bók, sérvéttum og sumar konurnar í hverfinu tóku fyrir mig sérvéttur þegar þær fóru í veislu og geymdu í kassa sem ég svo sótti til þeirra. Ég bauð fólki að þrífa fyrir 50 kall, sótti mat handa kettinum í fiskibúðina sem afgreiðslumaðurinn hafði safnað úr afgöngum og ég var alltaf með tombólur. Þegar ég var lítil þá fékk ég mikið frelsi til að vera barn og það frelsi var mér ómetanlegt. Ég sullaði í drullupollum, lék mér í fötunum hennar ömmu, við vinkonurnar héldum leikrit fyrir foreldra okkar heima hjá einni okkar. Ég fékk að baka uppskrift sem ég bjó til sjálf úr öllu sem varð að engu.

Auglýsing

Þegar ég var lítil þá eignaðist ég svo mikið af minningum, ég var alltaf úti að leika mér, ég var sjálf látin finna mér hluti til þess að gera og nóg var af þeim. Ég var látin taka ábyrgð og ég sinnti störfum á heimilinu sem gerðu það að verkum að ég komst mjög sjálfstæð út í lífið. Ég er svo þakklát fyrir að hafa alist upp við þannig aðstæður…ég þurfti að hafa fyrir hlutunum en fékk þá ekki upp í hendurnar þannig bar ég líka mikla virðingu fyrir því sem ég eignaðist og ég var stolt af því að hafa keypt mér hluti sjálf.

Gerum það besta úr barnæsku barna okkar, hún er svo ofboðslega dýrmæt!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!