KVENNABLAÐIÐ

Óska ekki eftir sjálfboðaliðum til að leita að Birnu um helgina

Aðstandendur Birnu Brjánsdóttur sem standa að Facebooksíðunni Leit að Birnu Brjánsdóttur hafa sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu sem varðar leitina sem fram mun fara um helgina og verður ein sú umfangsmesta sem um getur. Áætlað er að mörg hundruð björgunarsveitarmenn taki þátt í leitinni, skv. frétt frá RÚV. Biðla þau til almennings að fara ekki að leita nema um slíkt sé beðið og þakka þau jafnframt allan stuðning sem þau hafa fengið frá samfélaginu. Einnig koma þau skilaboðum til almennings hvað fjársöfnun varðar.

Auglýsing

Tilkynningin er hér í heild sinni:

Kæru hjálpfúsu borgarar.

Um leið og við þökkum ykkur frá dýpstu hjartarótum fyrir alla þá óeigingjörnu vinnu sem þið hafið lagt af mörkum við leitina að Birnu þá höfum við fengið nokkrar fyrirspurnir varðandi að safna fé fyrir aðstandendur, lögreglu og/eða björgunarsveitir. Okkar langar því að koma eftirfarandi á framfæri:

Allar okkar hugsanir snúast fyrst og fremst um að finna Birnu.


Björgunarsveitir og lögregla verða með víðtæka leit á suðvesturhorninu á morgun og við viljum að sjálfsögðu ekki gera neitt sem getur haft áhrif á þeirra aðgerðir. Að ósk lögreglu höfum við því ákveðið að halda að okkur höndum hvað varðar frekari leit sjálfboðaliða. Ef á einhverjum tímapunkti lögreglan óskar eftir því við okkur að við setjum leitina af stað aftur þá munum við koma með tilkynningu hér á síðunni.

Á meðan er mikilvægt að deila upplýsingum frá lögreglu um myndbandsupptökur úr bílum og auglýsingunni eftir hvíta bílnum sem gæti hafa orðið vitni að einhverju sem nýtist við rannsókn málsins.

Varðandi fjársöfnun:
a) Okkur skilst að lögreglan sé ekki með fjársöfnunarreikning en við höfum lagt inn fyrirspurn hjá lögreglufélaginu.
b) Björgunarsveitir er hægt að styrkja í gegn um heimasíðu björgunarsveitarinnar.
c) Ef einhver áhugasamur vill setja af stað fjársöfnun fyrir annað hvort a eða b þá getum við deilt því hér inn. Þó með þeim fyrirvara að annað efni sem snýr að leit eða tilkynningum varðandi Birnu verði alltaf í forgangi.

Ástarþakkir fyrir allan þann stuðninginn, ástúð, hugulsemi, umhyggju, dugnað og ósérhlífni sem þið hafið sýnt okkur. Þið eruð ljós í myrkrinu sem lýsir upp þessa erfiðu daga og gerir þá bjartari. <3 <3 <3 <3 <3

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!