KVENNABLAÐIÐ

„Þú ert ekki veik“

Það er margt sem hvílir á mér þessa dagana, sumt er algjört rugl en annað meikar aðeins meiri sens.

Ég hef, eins og flestir landsmenn, fylgst stolt með druslubaráttunni, hvernig skömminni er skilað og þolendur stíga fram og segja sína sögu öðrum til fræðslu og forvarnar. Ég elska svona byltingar, það er svo yndislegt að sjá alla standa saman og verja náungan, og ég hef sjaldan verið eins mikið í essinu mínu og yfir myllumerkjabyltingunum.

Þegar ég sá hvað allir þessir þolendur voru hugrakkir að stíga fram og segja sína sögu, og ekki síst þegar ég sá hvað það hjálpaði mikið öðrum sem voru á svipuðum stað, gat ég ekki annað en tárast aðeins. Þessi samstaða sem allir sýndu fékk mig til að velta vöngunum yfir annarri byltingu sem þyrfti að líta dagsins ljós. Það vantar byltingu gegn öðru tabúi sem á svo innilega ekki að vera lengur tabú árið 2015. Það vantar byltingu gegn þögguninni á geðrænum sjúkdómum.

Ég sjálf hef og er að berjast við átröskun og kvíða, og er að bíða eftir að fá greiningu á þunglyndi. Ég hef verið lengst að berjast við þunglyndið, held að það hafi byrjað uppúr 2011, en ekki orðið alvarlegt fyrr en 2014. Ég sagði engum frá, fyrst hélt ég að þetta væri bara sorgarferlið, sem þetta örugglega var, þar sem ég missti afa minn haustið 2011, svo ég reyndi bara að ýta þessari hugmynd lengst aftur í heila og helst það langt að hún fyndist aldrei.

Vikurnar eftir að afi dó var ég sífellt að ganga úr skugga um að enginn væri sorgmæddur, ég reyndi alltaf að kæta alla sem voru í kringum mig, og ég man að amma sagði mér að ég væri guðsgjöf, litli gleðigjafinn hennar sem lýsti upp dimma daga. Ég tók þetta inná mig og reyni að fara eftir þessu hvern einasta dag, ennþá, þótt að ég viti að það er einfaldlega ekki hægt að gera sjálfan sig ábyrgan fyrir hamingju annarra.

Ég fann nú svo sem ekki fyrir mjög miklu hvað varðaði líðan fyrr en sumarið 2014. Ég var alveg einstaklega einmana, var heima ein langflesta daga og ég varð mjög þung í skapi og svaf mjög lítið. Vorið áður hafði einhvern veginn ekkert gengið upp hjá mér, ég fékk lágt í stigsprófinu sem ég tók, ég komst ekki inn á listdansbraut og allt dró úr mér kjark. Ég var sérstaklega góð í því að kvelja sjálfa mig með þessu, allt sumarið, og þessar vikur er mestallt í þoku fyrir mér núna því ég var frekar dauf allan tímann. Ég ákvað að ég yrði ekki sátt aftur fyrr en ég yrði upptekin, svo að ég tók mig til um haustið og hoppaði yfir 9. bekk, bauð mig fram til formanns nemendaráðs, var kosin, og átti ekki lengur dauða stund.

Karitas Bjarka

Þetta gekk vel, ég var hálfhissa hvað þéttbókuð dagsskrá gerði mikið fyrir mig, og ég naut þess í botn að þurfa ekkert að hugsa um neitt annað en hvernig ég ætlaði að fara á dans og píanóæfingu, nemendaráðsfund og ungmennaráðsfund og læra heima á sama degi, eftir 7 tíma í skólanum.

En svo kom jólafríið, og allt í einu hafði ég ekkert að gera. Ég hafði litla sem enga orku, og fyrst svaf ég heilu dagana, þótt ég hvíldist aldrei almennilega, en samt hélt ég andlitinu. Vikuna á milli jóla og nýárs byrjuðu svo martraðirnar, allar um það sama, að missa ástvin á einn eða annan hátt. Ég hætti að fara að sofa því ég einfaldlega þorði því bara ekki, hvern myndi ég missa næst?

Ég missti matarlystina með svefninum, ég hugsaði ekki um sjálfa mig og var eins og fjarlægur svefngengill, talaði lítið, borðaði lítið og horaðist. Fljótlega fór ég að taka eftir því hvað mér gekk vel að borða ekki. Einu sinni gleymdi ég að borða í 26 tíma, og ég var stolt af mér, og vildi helst geta sláð metið. Ég hafði heyrt af stelpu sem borðaði ekki í 48 tíma, og ég hugsaði með mér að ég færi létt með að toppa það.

Ég sé núna hvað þetta var brenglaður hugsunarháttur, mig dreymdi um að geta tekið utan um lærin mín og látið fingur snertast á báða bóga, og ég gat það um stund. Mig dreymdi um útstæð rifbein og útstæð mjaðmabein, stórt og fallegt bil á milli læranna og allt það sem myndi gera mig hamingjusama, svo ég sleppti nesti og sagðist borða í skólanum. Ég lifði á banana á dag og smá kvöldmat, í 2 mánuði, og ég neitaði að hlusta á foreldra mína þegar þau lýstu yfir áhyggjum sínum og að kannski ætti ég að hugleiða það hvernig langtímaáhrif þetta hefði á mig.

Þetta hélt svona áfram, og ég fann að ég var að særa fólkið í kringum mig, svo ég byrjaði að refsa mér fyrir það. Ég ætla ekki að fara út í smáatriði en ég er ennþá með ör.

Með þessu þróaði ég með mér kvíða. Kvíðinn var þetta sem hélt mér vakandi á nóttunni, gaf mér korters svefn og gerði mig að taugaveiklunarhrúgu. En kvíðinn er líka þetta sem rúllaði björgunarboltanum af stað.

Eftir að hafa vakað alla nóttina grátandi í kvíðakasti yfir hlaupaprófi daginn eftir, mætti ég í íþróttir. Ég hafði tweetað örvæntingafull yfir nóttina og hafði gleymt því að góð vinkona mín followaði þennan enska account minn, svo það kom mér í opna skjöldu þegar hun spurði mig út í tweetin í byrjun tímans. Ég brotnaði niður.

Ég sat hágrátandi inní búningsklefa þegar íþróttakennarinn kom á eftir mér og spurði hvað væri að. Ég ætla ekki að fara að segja frá spjallinu okkar, ég virði kennarann minn of mikið fyrir að segja mér frá því sem hún gerði, en þetta varð til þess að hún lét umsjónarkennarann minn vita, sem lét mömmu vita og við mæðgurnar áttum gott spjall.

Ég komst inn hjá félagsfræðingi, hef farið til hennar tvisvar núna, og það er æðislegt að tala við hana. Ég er komin aftur í þyngdina sem ég var í fyrir veikindin, þótt ég eigi alveg ótrúlega erfitt með að borða.

Málið er bara það, að ég er að reyna. Ég er í stöðugri baráttu við sjálfa mig alla daga, en oftast endar hún vel.

Það sem ég vil er að fólk hætti að segja öðrum sem reyna að segja sína sögu af geðrænum sjúkdómum, og þá sérstaklega þunglyndi, að það sé að leitast eftir athygli og umfjöllun. Ég vil að fólk hætti að rómantesera þessa sjúkdóma, og ég vil að það sé á okkur hlustað. Við erum ekki bara geðveik.

Ég á örugglega eftir að fá eitthvað um athyglissýki þegar ég hef loksins kjarkinn í að birta þess grein, en ef ég á að vera hreinskilin, er mér frekar sama. Það er búið að taka mig marga mánuði bara að þora að setjast niður við tölvuna og skrifa, og fyrir þetta eitt er ég stolt af sjálfri mér.

Svo ég segi bara, standið með ykkur og ykkar erfiðleikum, það er enginn of ómerkilegur til að eiga skilið að segja frá.

Karitas

Pistill Karitas Bjarkadóttur birtist upprunalega af vefsíðunni KVÍÐI – kvidi.is, en vefsíðan er vettvangur er fyrir fólk og aðstandendur þeirra sem glíma við kvíða og þunglyndi. Á vef KVÍÐA er hægt að finna heilu fjöllin af skemmtilegu og fræðandi efni, allt frá fræðslu og pistlum og til reynslusagna fólks. 

kvidi.is er á Facebook

kvidi

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!