KVENNABLAÐIÐ

5 hlutir sem allir verða vita um foreldrahlutverkið!

Hvaða foreldri kannast ekki við erfiða daga? Daga þar sem við komum örþreytt heim og þá tekur heimilislífið við. Það þarf að fara í búðina, elda, sinna þreyttum börnum, þvo þvott, ganga frá, fara út með hundinn og sinna sjálfum sér í leiðinni.

Það er því ekki að undra að við séum stundum dauðuppgefin eftir erfiða daga en við getum huggað okkur við það að þetta er eitthvað sem allir foreldrar ganga í gegnum. Í gegnum vinkonur mínar hef ég lært 5 hluti sem mér finnst ótrúleg huggun að hafa á bak við eyrað þegar allt virðist ganga á afturfótunum, íbúðin gjörsamlega í rúst og börnin öskrandi í búðinni.

screenshot-docs.google.com 2015-08-22 21-28-49

1. Öll börn verða óþekk

Það er ekki hægt að skrifa öskrandi börn á lélega foreldrahæfni og við getum huggað okkur við það að öll börn reyna á þolmörkin. Þau verða líka þreytt og pirruð og geta tekið óþekktina út hvar sem er. Hvort sem það er í búðinni eða innan lokaðra veggja heimilisins þar sem það sést ekki. Það eru ekki bara þín börn sem rífast og slást. Það gera þetta öll börn, líka börn mömmunar sem horfir hneyksluð á þig í búðinni. Sú mamma er líklegast ekki að dæma þig heldur er hún guðs lifandi fegin að sjá önnur börn láta eins og villidýr.

screenshot-docs.google.com 2015-08-22 21-32-05 (1)

2. Súpermamman á Facebook er ekki Súpermamma!

Hver á ekki óþolandi vinkonu á smettisskruddunni sem á fullkomna barnið í hreinu fötunum? Íbúðin virðist alltaf glansa og henni tókst að fara í ræktina, synda, baka köku, fara í vinnuna, fá stöðuhækkun, elda dýrindissteik, ganga frá eftir matinn og skrifa stöðufærslu um afrek dagsins á Fésið? Þetta allt á mánudegi. Hins vegar sagði vinkonan ekki frá því að Betty Crocker aðstoðaði við baksturinn og eina hreina svæðið á  heimilinu er eldhúsið. Hún gleymdi líka pottþétt að segja frá öskrandi börnum sem komu heim alveg jafn skítug og öll önnur leikskólabörn á Íslandi. Við getum öll málað af okkur glansmynd í gegnum internetið en á bak við myndina eru fólk alveg eins og við hin.

screenshot-docs.google.com 2015-08-22 21-45-59
3. Heimilið á ekki alltaf eftir að líta út eins og nýþrifin íbúð úr Ajax auglýsingu

Börn drasla til og ganga ekki frá eftir sig nema að þú bendir þeim á það (og stundum þarf að benda þeim á það 7 sinnum). Foreldrar geta orðið svo þreyttir að það má alveg ganga frá eftir matinn á morgun, diskarnir hlaupa ekkert í burtu frá þér. Njóttu þess frekar að eiga góðar stundir með krökkunum og lestu fyrir þau eða sestu hjá þeim á gólfið og farðu að kubba.

 

screenshot-docs.google.com 2015-08-22 21-47-384. Þvottakarfan á eftir að fyllast

Það er ekki alltaf tími til þess að þvo þvott. Stundum er annað að gerast og við þurfum að sinna mikilvægari hlutum en óhreinum þvotti. Og þegar kemur að því að við ráðumst á þvottinn þá er ekkert endilega tími til að brjóta hann allan saman. Við eigum öll stól eða sófa sem á það til að fyllast af hreinum, ósamanbrotnum þvotti.

screenshot-docs.google.com 2015-08-22 21-49-485. Flíspeysumamman í Crocs skónum

Allar mömmur verða þreyttar. Við eigum okkar slæmu daga inn á milli og stundum erum við það þreyttar að við hreinlega höfum það ekki í okkur að fara í betri fötin, mála okkur og fullkomna hárgreiðsluna. Við getum ekki alltaf litið út eins og stjörnurnar á rauða dreglinum. Stundum er líka bara allt í lagi að eyða heilum degi í þægilegustu náttfötunum, ómálaðar og ógreiddar.

Að halda heimili og sinna börnunum er ekki keppni. Við erum öll mennsk og getum ekki haft allt fullkomið öllum stundum. Börnin eru í forgang og heimilið þarf stundum að sitja á hakanum. Hver staðan er á þvottakörfunni okkar segir ekkert til um hvers konar foreldrar við erum. Við höfum aðeins 24 tíma í sólahringnum og af þeim þurfum við 8 tíma svefn. Við eyðum öðrum 8 tímum í vinnunni og eigum aðeins 8 tíma aflögu til þess að gera allt hitt sem þarf að gera á daginn eins og t.d. vakna, koma öllum í leikskóla og vinnu, sækja börnin, fara í búðina, heimsækja ættingja, elda og sinna heimilinu.

Það segir sig sjálft að stundum er bara ekki tími til þess að gera allt. Það er líka bara allt í lagi að setjast á gólfið og kubba með börnunum í staðinn fyrir að þurka af. Börnin kunna að meta það og þú átt sjálf eftir að njóta þess að eyða tíma með krökkunum.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!