KVENNABLAÐIÐ

Magnús Máni: „Hvaða geðsjúklingi datt í hug að búa til svona vefsíðu?“

Geðræktarsíðan KVÍÐI, eða kvidi.is sem nýverið var sett á laggirnar, er rekin af menntskælingnum Magnúsi Mána, sem er sautján ára gamall og þekkir kvíðaröskun af eigin raun. 

Á geðræktarsíðunni má meðal annars lesa hagnýta ráðgjöf, tillögur að því hvernig má sefa kvíðaköst og einlægar frásagnir Íslendinga sem glíma við kvíða og þunglyndi; með hvaða hætti hægt er að takast á við stöðuna og síðast en ekki síst, svipta hulunni af þeirri skömm sem hvílir yfir geðröskunum. Í einlægum ritstjórnarpistli frá Magnúsi rekur hann sjálfur í grófum dráttum ástæður þess að vefmiðillinn fór í loftið, hvenær og hvernig kvíðinn gerði fyrst vart við sig og með hvaða hætti hann sjálfur lærði að lifa með kvíðanum.

SYKUR birtir hér hluta úr ritstjórnarpistli Magnúsar með hans leyfi, en ætlun okkar er að birta á næstu vikum, fáeinar kynningargreinar sem taka á málefnum kvíðinna af vefmiðlinum og fer fyrri hluti ritstjórnarpistils Magnúsar þar fyrstur, en greinina má lesa í heild sinni á vefmiðlinum Kvíði:


Ég er Magnús og ég er með kvíða, mjög mikinn kvíða hins vegar. Ég er samt sem áður fullkomlega eðlilegur. Hverjum er það að kenna að ég sé með kvíða? Er það mér? Er það uppeldinu? Eða umhverfið sem ég bý í?

Það er ekkert af þessu að kenna, einfalda útskýringin er sú að ég fæddist svona. Ég fæddist með þann galla að vera kvíðinn, Ég er mjög glaður og hamingjusamur yfir því að vera kvíðinn, ég virkilega er það! Ég elska það, vegna þess að það hefur kennt mér og gefið mér svo margt sem aðrir hafa og munu kannski aldrei skilja eða upplifa. Ég er virkilega heppinn að fá að upplifa ofsakvíða, þungan andardrátt, eiga í erfiðleikum að tjá mig, vera skrítinn og enginn „venjuleg“ manneskja skilur mig. Þetta er æðislegt! Vegna þess hve mikil áhrif þetta hefur haft á mig, mitt líf og ákvarðanatöku.

Ég hef verið kvíðinn síðan ég man eftir mér. Í grunnskóla gerði ég mikið af því að fíflast og hafa gaman eins og hver annar krakki, nema ég var öðruvísi, ef ég datt á rassinn, ef ég rakst í aðra manneskju, ef ég mismælti mig og sagði eitthvað vitlaust, fór ég heim hlaupandi eftir daginn og taldi upp hvert einasta atriði sem gerðist þann dag í skólanum við mömmu og þetta voru alveg upp í 11-13 atriði hvern einasta dag. Ég lenti í því að týna strokleðrinu mínu einu sinni í 2. bekk í Rimaskóla og ég fór að hágráta í miðri kennslustund því ég virkilega fór að panika, en fann svo strokleðrið sem var þar sem ég skyldi það eftir.

Ég veit ekki hversu oft ég hef lagt óeðlilega mikið á mig til það að bregðast ekki fólki og að bregðast ekki sjálfum mér, einn daginn vaknaði ég upp úr rúminu og stóð upp og hugsaði: „Hey mig langar geðveikt að búa til trékassa“ en ég átti engin verkfæri eða efni í kassann, en ég átti litla dóta handborvél. Ég hætti ekki þar ráðalaus, ég fór niður á byggingasvæði og fann mér eina RISA stóra, langa og breiða spítu sem var miklu stærri en ég. Ég dró hana um 3 kílómetra heim til mín og hófst handa!

Ég notaði litlu handborvélina mína og reyndi að gera göt allan hringinn í gegnum spýtuna til þess að saga hana í sundur, ég gekk það langt að ég náði að búa mér til þennan fallega trékassa vegna þess, BARA vegna þess að ég er kvíðinn og þrjóskur. Þetta hefur fylgt mér alla ævi, þessi fallegi kvíði sem ég á. Ég hef gert og áorkað svo margt í lífinu vegna þess hve kvíðinn ég var við því að skila ekki ALLTAF 134% í öllu sem ég geri.

„Fólk ímyndar sér kvíða og sér neikvæðan og ljótan hlut, sem er satt… fyrir suma! Því kvíðinn er sverð og þú verður að læra að halda utan um skaftið en ekki járnið. Um leið og þú lærir að beita sverðinu geturðu notað það sem vopn.“

Þessi grein er bútur og er birt í samstarfi við geðræktarvefinn KVÍÐI – smelltu HÉR til að lesa allan ritstjórnarpistil Magnúsar og afla frekari upplýsinga um leiðir til að sigrast á kvíða: 

kvidi

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!