KVENNABLAÐIÐ

Hugleiðingar brúðar: „Hverjum ertu eiginlega að fara að giftast?“

Frá því að ég var ung stúlka hef ég haft blendnar tilfinningar til brúðkaupa og þess sem þeim fylgja, hjónabanda. Á meðan vinkonurnar létu tuskudýrin sín giftast, lýstu draumakjólunum sínum og notuðu taubleiur frá yngri systkinum sínum sem slör var ég líklegri til að vera með grasgrænu á hnjánum og hor í nos, hreint ekki viss um að þetta væri fyrir mig. Fyrir mér voru Lína Langsokkur og Ronja ræningjadóttir miklu meira heillandi karakterar en prinsessurnar sem biðu passívar eftir prinsunum sem gerðu allt svo miklu betra.

Bókasafnið í Fríðu og dýrinu var draumurinn, ekki prinsinn.

carrie-closet

Eftir því sem ég varð eldri urðu fyrirmyndirnar aðrar. Ég er forfallinn Sex and the City aðdáandi og eins og Carrie vinkona mín hafði ég ennþá mínar efasemdir um ágæti hjónabandsins. Þegar ég horfði á þættina var það búsetan, starfið og fataskápurinn sem ég varð heilluð af frekar en tilhugsunin um að þarna úti einhvers staðar væri minn mr. Big sem kæmi til mín á eðalbíl með blöðrur og kampavín og myndi bjarga málunum.

Staðreyndin er sú að mér fannst engu þurfa að bjarga. Ég gat þetta alveg sjálf. En það sem ég hef lært á síðastliðnum 6 árum sem ég hef eytt með verðandi manninum mínum er að þetta er ekki spurning um að geta heldur að vilja.

Ég vil deila þeim ævintýrum sem lífið hefur upp á að bjóða með þeim sem ég elska og því þurfti ég ekki að hugsa mig tvisvar um þegar hann bað mín.

0eb0a15748c647d80f3c232201549df6

Fljótlega eftir það fórum við að undirbúa giftinguna og þar sem hvorugt okkar hafði séð þennan dag fyrir sér frá blautu barnsbeini tóku við miklar pælingar. Þá komst ég að því hvað það er ótrúlega auðvelt að gleyma sér í smáatriðunum og í langan tíma var ég með þetta algjörlega á heilanum. Ég þræddi hverja vefsíðuna á fætur annarri í leit að hinu fullkomna hárskrauti og búðir borgarinnar að hinum fullkomnu undirfötum. Allt skyldi vera fullkomið.

Það var því kærkomin áminning þegar samstarfskona mín óskaði mér til hamingju með væntanlega giftingu, þegar ég var á tali yfir einhverju jafn (ó)merkilegu og kökutoppnum, og spurði einlæglega:

„Hverjum ertu svo að fara að giftast?“

Í fyrstu vissi ég ekki hverju ég ætti að svara og hálf hneyksluð og flissandi svaraði ég: „Nú auðvitað kærastanum mínum“.

Eftir á dauðskammaðist ég mín fyrir þetta svar. Afhverju var þetta eitthvað „auðvitað“? Ég hefði alveg eins getað verið að giftast kærustunni minni.

En af tveimur ástæðum er ég þakklát fyrir að hún spurði. Í fyrsta lagi vegna þess að það minnti mig á hvað ég er lánsöm að búa í landi þar sem hjónabönd samkynhneigðra eru jafn sjálfsögð og hver önnur hjónabönd  og í öðru lagi vegna þess að þetta var í fyrsta skipti sem einhver hafði í raun spurt eitthvað út í hinn aðilann sem gerði þetta brúðkaup að möguleika. Það er gott að vera minntur á það, þegar maður er á kafi í konfektuppskriftaleit, að makinn skiptir svo miklu meira máli en allar heimsins blúndur og brúðarvendir.

grid-cell-31785-1372271599-8

003c995311c64672dac83e04e62b3729

Eftir örfáa daga verð ég gift kona og það hræðir mig ekki neitt vegna þess að þetta er mitt val en ekki einhver þörf eða skylda.

Stóri dagurinn mun ganga í garð með tilheyrandi blómaskreytingum, kossum, servíettuskrauti og gleðitárum og ég veit að hann verður fullkominn. Þó svo að það rigni, komi blettur í kjólinn, einhver frænka verði vandræðaleg drukkin eða kertin dugi ekki allt kvöldið get ég farið sátt að sofa vitandi það að manneskjan sem ég vakna við hliðina á daginn eftir er mín og ég hennar. Það gleður brúðarhjartað mitt óstjórnlega að þetta sé eitthvað sem allir hafi möguleikann á að upplifa, ef þeir vilja.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!