KVENNABLAÐIÐ

Lúlú skrifar frá L.A.: Að detta um ástina

Já það er víst kallað “falling in love” á ensku og sjálfsagt ekki að ástæðulausu.

Because when you fall you are bound to get hurt from time to time. Og það er einmitt það sem gerist þegar maður hrasar um ástina. Þetta veit ég að flestir kannast við.

Sumir segjast aldrei hafa orðið ástfangnir en ég á erfitt með að trúa því. Það gerist kannski einu sinni eða tvisvar yfir ævina en það gerist. Svo mikið er víst.

Einu sinni rak ég tánna í og hrasaði svona svakalega um ást. Þegar ég rankaði við mér enn hálf vönkuð með stjörnur og strik svífandi í kringum hausinn á mér svona svipað og í teiknimyndunum endaði ég með hjörtu í augunum og það var ekki aftur snúið.

Ég var ástfangin.

Ég sveif um og fannst ég ekki snerta jörðina.

Ég sá ekkert nema hann.

Ég hefði gert allt fyrir hann. ALLT.

En lífið er ekki ævintýri. Svo mikið er víst. Þú hrasar um ást. Þú getur misstígið þig í kringum ást og jafnvel dottið um hana en endist hún?

Eru ekki allar þessar hrakfallir sem leiða þig að ástinni bara merki um það að þú endar sár, hrufluð á hnjánum eða vönkuð eftir fallið?

Nú er ég bara að skrifa um eigin reynslu en mér finnst samt svo rosalega margir missa sig í ástina og týna sjálfum sér þangað til að allt er farið til fjandans.

Það er flest allt rosalega gott í byrjun. Við elskum nýjungar og sækjumst í þær. Það er gaman að prufa nýja hluti og smakka á framandi mat. En við mannfólkið getum bara verið svo gráðug að það þarf alltaf meira og meira og ganga lengra og lengra sem oftar en ekki endar illa.

Svo eru það hinir sem eru svo nægjusamir, búnir að finna ástina sína og halda að það sé bara alveg nóg. Ástin er komin og þá þarf ekkert að hafa neitt fyrir hlutunum. Það er hætt að koma hvort öðru á óvart. Það er hætt að hafa sig til og vera sæt og sexy eða sætur og sexy fyrir ástina sína. Þægindastuðullinn er svo rosalegur að við höldum að hann sé óbrjótanlegur.

Mistök, RISA MISTÖK.

Það getur líka stundum tekið langan tíma að finna ástina. Finna þennan eina rétta. Það er búið að fara og máta og prufa og spegla sig en ekkert virðist passa. En það þarf samt að gera þessa hluti. Ekki ferðu út í búð og hleður á þig fötum og skóm og kaupir, ferð með heim án þess að máta! Það er nú bara áskrift á einhverja hörmung. Og vá hvað ég er fegin að það er ekki svona fyrir fram ákveðinn maki fyrir konur á Íslandi. Eitthvað foreldra val.

Stúlkan mótmælir ráðhagnum hástöfum en er sagt: „þú lærir að elska hann”. Nei, ég held ekki. Ekkert frekar en að maður myndi læra að fíla fáránlega flík sem keypt var í fljótfærni án þess að máta hana.

Ég er bara þeirrar skoðunar að það þarf að máta. Fyrir bæði kynin auðvitað. Engin nennir að eyða ævinni með manneskju sem snertir hana/hann ekki á nokkurn hátt.

Mér finnst alltaf jafn yndislegt að sjá fólk á besta aldri sem er ástfangið. Sem kyssist eins og engin sé að horfa. Sem helst í hendur og horfir hvort á annað enn með hjörtun í augunum eftir jafnvel tugi ára.

Það er ekkert voða fallegt að öfunda en ég viðurkenni að ég öfunda fólk sem á svona gott að hafa þennan eða þessa einu sönnu ást sér við hlið mestan hluta ævinnar.

Hlúum að henni, ÁSTINNI, ef við erum svo heppin að hafa hana í okkar lífi.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!