KVENNABLAÐIÐ

Ég er hætt að skammast mín

Ég er einstök. Skrítin jafnvel. Finn það í hverju beini. Öllum 206. Veit að fólki finnst ég skrítin. Furðuleg og yfirdrifin. Ég get ekki að því gert. Svona er ég.

Stundum er þetta óþægilegt. Og þá langar mig bara að falla í kramið og inn í fjöldann. En það gerist aldrei og ég veit það. Yfirvinn tilfinninguna og held áfram að vera ég.

Oft finnst mér óþægilegt að vera innan um fólk sem finnst ég skrítin eða óþolandi. En svo tek ég í lurginn á þeirri tilfinningu því ég veit að það er ekkert sem ég get gert í því. Ekki breytt öðru fólki. Ég get ekkert hætt að vera skrítin heldur. Bara fyrir þau.

Ég fæddist með vissa eiginleika eins og að vera skrítin manneskja og brún augu. Ég get ekki hætt að vera brúneygð, ef ég fengi mér linsur til að vera eins og allir bláeygðu vinir mínir, þá væri það bara lýgi. Ég væri samt brúneygð undir yfirborðinu.

Og af hverju þurfa allir að vera steyptir í sama mót? „Venjulega“ mótið er of lítið fyrir mig. Samt reyni ég að troða mér í það öðru hverju þegar augngoturnar og óþægindin eru orðin óbærileg. Mér líður þá eins og stjúpsysturinni sem skar af sér tærnar til að komast í glerskóinn.

Ég er góð manneskja. Stórundarleg, en samt sem áður góð. Ég geng með hatta og í áberandi fötum. Þannig er fegurðarskyn mitt og ég geng í því sem fellur að mínum smekk. Ég segi oft óviðeigandi hluti áður enn ég hugsa. Ég er strigakjaftur. En ég særi ekki fólk ef ég mögulega kemst hjá þvíog alls ekki viljandi. Ef það er ekkert annað en særandi hlutir að segja, þá þegi ég frekar. Ég tek ábyrgð á því sem ég segi. Ég tek líka ábyrgð á viðbrögðum mínum við öðru fólki og líðan minni.

Kannski ekki svarti sauðurinn í fjölskyldunni…en allavega mórauður. Sum þeirra fara hjá sér þegar ég byrja. Ranghvolfa augunum. Og þá skammast ég mín og langar bara að falla í hópinn eða detta niður dauð. Note to self: Hætta að skammast mín fyrir að vera ég.

Þó það sé strigakjaftur á mér í daglegu lífi hef ég ekki þörf fyrir að vera ruddaleg í skrifum mínum. Ég hef bara vanið mig á vandað ritmál og á þá staðreynd að allir hlutir eiga sér einnig falleg nöfn. Falleg orð.  Og undarlegur hugur minn er stútfullur af þeim.

Ég elska orð. Ég smjatta á þeim. Endurtek þau þangað til þau missa merkingu sína. Þá eru þau fallegust. Höfuðið á mér er stútfullt af þeim. Ykkur þætti eflaust forvitnilegt að fá að kíkja, en þið yrðuð bara ringluð.

Sjáið til, ég er ekki bara furðufugl á yfirborðinu. Hugarheimur minn er algjört ævintýri líka. Mér finnst gaman að vera ég. Já ég veit, soldið klikkuð.

En ég ætla ekkert að streða við það að vera eitthvað annað en ég er.

Ég ætla bara að halda áfram og leggja mig fram um að vera sem allra besta eintakið af sjálfri mér…. og sleppa því algjörlega að vera léleg eftirlíking af öðrum.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!