KVENNABLAÐIÐ

SEX atriði sem KARLAR kvarta oftast yfir við hjónabandsráðgjafa

Hvað tala karlar oftast um í hjónaráðgjöf og hverju sækjast þeir eftir þegar inn í hjónabandið er komið – að ekki sé minnst á þá þætti sem þeir ræða helst í trúnaði við sálfræðinga, pararáðgjafa og aðra trúnaðaraðila?

Áhugaverð umfjöllun á vef Huffington Post bar fyrir augu ritstjórnar rétt í þessu, þar sem þrír hjónabandsrágjafar svara spurningunni og taka til þau sex atriði sem hvílir þyngst á flestum körlum sem leita ráðgjafar vegna erfiðleika í hjónabandi. Hér fer endursögn að hluta í íslenskri þýðingu – en eftirtalin atriði kannast sennilega flestir sem glímt hafa við erfiðleika í hjónabandi við:

#1 – Konan mín gerir ráð fyrir að ég lesi hugsanir:

Karlmenn kvarta oft undan því hversu ósanngjarnt það er að þeir eigi að vita hvernig eiginkonum þeirra líður öllum stundum; að það sé hreint út sagt ómögulegt að skynja og greina hvernig annarri manneskju líði – hvernig sem viðrar í sálarlífinu. Að ekki sé minnst á þá staðreynd að giski eiginmaðurinn ekki á rétta upplifun eða viðeigandi tilfinningu, hljóti hann að vera ljóti kallinn”.

Því er nefnilega ekki þannig farið að konur geti gengið út frá því sem vísu að maki þeirra geti alltaf greint hvernig þeim líður. Þvert á móti þurfa báðir aðilar í sambandinu að koma hreint til dyranna og segja frá því – berum orðum – hvernig þeim líður. Þannig ættu konur að vera hreinskilnar en karlmenn ættu líka að hvetja ástkonur sínar til að tala út um langanir sínar og þrár. Ákveðin málamiðlun ætti svo að vera undir parinu komin, svo bæði geti sátt við unað.

#2 – Ég vil ekki rífast við konuna mína á kvöldin:

Gefum okkur að þegar par heldur úti stóru heimili þar sem enginn stundarfriður gefst til að ræða málin yfir kvöldverðinum eða meðan börnin eru enn vakandi; að freistandi sé að draga upp öll áhyggjuefnin þegar parið leggst á koddann að kvöldi dags. Að mati konunnar er um áríðandi mál að ræða sem getur ekki beðið en maðurinn lítur svo á að þetta smáatriði megi leysa seinna og að þau ættu bara að sofna. Þó síðasta stund dagsins sé fullkomin að mati margra kvenna – eru ófáir karlar á þeirri skoðun að áhyggjuefni ætti aldrei að ræða rétt fyrir svefn. Þegar verst lætur geta karlarnir jafnvel upplifað höfnun og skilningsleysi, þar sem gert er lítið úr þreytu þeirra en konurnar líta samtímis svo á að karlinn sé kærulaus og kaldlyndur því hann þráir ekkert heitar en að sofna á stundinni.

EF ofangreint hljómar kunnuglega, getur verið sniðugt að taka frá tíu mínútur eftir kvöldmat til að ræða sérstaklega það sem liggur fyrir, meðan bæði eru enn á fótum og þreytan ekki farin að sækja að … og njóta þess einfaldlega að leggjast upp í rúm síðla kvölds.

#3 – Konan mín metur mig ekki að verðleikum:

Ein af ástæðum þess að karlmenn leita út fyrir hjónabandið og halda framhjá eiginkonum sínum, er ekki alltaf skortur á kynlífi, heldur öllu fremur sú tilfinning að þeim þykir sem eiginkonur þeirra meti þá ekki að verðleikum. Þeir, með öðrum orðum, njóta ekki nægilega mikillar athygli heima fyrir.

Vandinn er fólginn í því að of margar konur líta svo á að ef þær veiti eiginmönnum sína of mikla athygli og viðurkenningu, muni löngun karlmannsins til að vinna ástir konunnar dvína. Þetta er misskilningur, þar sem karlmenn þrífast oft á hrósyrðum og hlýju – rétt eins og konur gera og eru líklegri til að leggja sig alla fram í hjónabandinu ef ástríki er ofan á í samskiptum.

#4 – Hún styður mig ekki þegar ég aga börnin:

Ef foreldrar ætla að vera samstíga í uppeldinu, þurfa báðir aðilar að vera sammála um þær grundvallarreglur sem eru hafðar í heiðri gagnvart börnunum. Hér þýðir lítið að spila Góða Löggan / Vonda Löggan. Ef faðirinn bannar meira sælgætisát á laugardegi, má móðirin ekki lauma súkkulaðimola upp í lítinn munn þegar enginn sér til.

Karlmenn kvarta meðal annars yfir því, þegar í hjónaráðgjöf er komið, að þeir njóti ekki stuðnings eiginkvenna sinna þegar að uppeldi barnanna kemur. Það er ekki bara mikilvægt barnanna vegna, að foreldrar standi saman á yfirborðinu, heldur er það líka báðum aðilum mikilvægt í sambandinu sjálfu. Ef barni lærist að foreldrar þeirra geti ekki komið sér saman um agaviðurlög og umbun fyrir vel unnin verk, er allt eins líklegt að barnið taki að stilla foreldrunum upp á móti hvoru öðru (en mamma sagði að ég mætti það”) og þetta getur svo aukið á spennu milli fullorðna fólksins og kynt undir neikvæð samskipti.

#5 – Hún hefur engan áhuga á að sofa hjá mér:

Samlíf hjóna er einn af hornsteinum hjónabandsins, en þar með er þó ekki sagt að pör viðhaldi eilífri löngun til trylltra kynmaka á hverju kvöldi þegar á líður. En nándin og kynlífið er samt sem áður hluti af heilbrigðu hjónabandi og pör þurfa að taka sér tíma til að njóta hvers annars, þó ekki sé nema öðru hverju. Alger skortur á kynlífi getur umbreytt hjónabandi í tilbreytingarsnauða meðleigu, sem getur fyllt bæði af höfnun og vanlíðan.

Fjölmargir karlar kvarta yfir einmitt þessu, að eiginkonur þeirra hafi engan áhuga á kynlífi lengur; að þeir séu ekki NÓG og geti ekki fullnægt maka sínum lengur. Lausnin er hins vegar ekki fólgin í því að leggja alla ábyrgðina á herðar kvennana, heldur þurfa bæði að vinna markvisst að því að endurheimta fyrri nánd – oftar en ekki með því að eyða meiri tíma saman utan svefnherbergisins. Karlar sem deila húsverkum með konum sínum og taka virkan þátt í uppeldi barna sinna lifa þannig fjörugra kynlífi, en það hafa fjölmargar rannsóknir leitt í ljós. Hér þurfa bæði að leggja sitt á vogarskálarnar svo hjónabandið verði ánægjulegra.

#6 – Hún er hætt að setja hjónabandið í forgang:

Ófáir karlar kvarta yfir því, þegar í hjónaráðgjöf er komið – að eiginkonur þeirra líti ekki lengur svo á að hjónabandið þurfi að leggja rækt við. Þær hafi sett eiginmanninn í síðasta sætið og sinni börnum, starfsframa, eigin félagslífi og áhugamálum ávallt fyrst. Þegar svo er komið leggja hjónaráðgjafar yfirleitt til að parið taki frá einn dag í viku sem einungis er helgaður þeim og engu öðru.

Í raun er hugmyndin ekki svo vitlaus, því giftir og trúlofaðir einstaklingar ættu líka að fara á stefnumót, rétt eins og par sem er enn að stíga sín fyrstu skref í tilhugalífinu; parið ætti með öðrum orðum að láta skyldur og ábyrgð um lönd og leið öðru hverju og fara á rómantískt stefnumót. Rauðvínsglas á notarlegu kaffihúsi, langir göngutúrar þar sem ábyrgð fjölskyldunnar er lauslega rædd en tilfinningar, vonir og þrár fá að vera í forgrunni öðru hverju – geta gert kraftaverk fyrir hjónabandið og oftar en ekki leyst úr ágreiningsefnum, því oft veltir lítil þúfa nefnilega þungu hlassi.

/HuffPost

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!