KVENNABLAÐIÐ

Kæra Deitbók: Sá trúaði

Kæra Deitbók –

Eins og ég áður hef sagt frá datt ég inn á Tinder, enda auðveld leið til að kynnast nýju fólki! Ein af tengingunum fannst mér vera einstaklega áhugaverð. Íþróttamaður, myndarlegur og metnaðarfullur. Á myndum er hann að taka í hendina á börnum sem eru íþróttamenn framtíðar, staddur í glæsilegum veislum íklæddur Armani, Gucci eða öðrum merkjavörum og í ítölskum leðurskóm sem gæti hæglega verið fetish hjá honum miðað við aðrar myndir, sem voru bara myndir af skónum hans.

Við byrjum að spjalla saman og tölum saman í 2 vikur eða svo. Hann sendir mér skilaboð mjög reglulega og sjálfsmyndir og yfirleitt er það hann sem hefur samræðurnar.

Mér finnst ótrúlega leiðinlegt að senda sjálfsmyndir og því miður er yfirleitt ekki langt í það að maður sé beðinn um að taka eina án fata og senda ef maður byrjar að senda myndir á milli. Ég sendi eina eða tvær myndir af mér, í fötum, svona bara af því að hann bað um það og var búin að senda mér myndir af sér.  Verður þú ekki einhvern veginn að sanna að þú sért þú, þegar þú ert að kynnast einhverjum á netinu?

Hann fer fljótt inn á það að við ættum að hittast. Mér finnst nú reyndar mun meira spennandi að hitta fólk en að spjalla við það á netinu og er yfirleitt opin fyrir að kynnast fólki. Ég er reyndar núna farin að efast um að ég sé eins opin og ég hélt.

Hann býr frekar langt frá mér og hann kemur með þá tillögu að hittast á miðri leið nokkrum dögum síðar, sem ég samþykki en samt með þessa litlu Vöku í hausnum á mér að segja mér að gera það ekki! Af hverju?  Ég veit það ekki alveg. Það er bara eitthvað.

Kannski er þetta *eitthvað* að ég væri þá að ferðast langa leið til að hitta einhvern sem ég hef aldrei hitt. Eða er það annars venjulegt að fólk geri það? Hvað ef hann er fáránlega leiðinlegur og ég er föst lengst í burtu frá þar sem ég bý. Hvað ef hann mætir bara alls ekki og ég er ein lengst í burtu?

Nei, það er ekki ástæðan fyrir því að ég er með handbremsuna á.

Eftir að hafa Googl-að hann, sem ég geri eiginlega alltaf og vinkonur mínar skamma mig iðullega fyrir að gera, sá ég að hann tilheyrir trúarbragðasöfnuði sem er ólíkur því sem ég ólst upp við. Í dag er ég ekki trúuð og aðhyllist engin trúarbrögð. Er þá ekki furðulegt af mér að deita einhvern sem er trúaður? Eða skiptir það engu máli?

Kannski er hann síðan ekkert að gera mikið úr trú sinni en einhverra hluta vegna fannst Wikipedia það þess virði að nefna að hann tilheyrði þessum trúarbrögðum, sem varð að því að ég var ekki spennt fyrir að hitta hann lengur, þar sem ég bjóst við að við ættum ekki samleið.

Nútimasamfélag segir okkur að við eigum að sýna virðingu fyrir hvort öðru sama hvaðan fólk kemur sem ég geri í mínu daglegu lífi, en hjarta mitt segir samt að framtíðar-loverinn minn ætti að vera með sömu siði og ég til að það gangi upp. Hvað heldur þú?  Hefur þú reynslu af samböndum milli trúarbragða?

Ég breytist í kjúkling daginn fyrir hittinginn okkar og segi honum að ég þurfi að vinna, sem var reyndar enginn lygi. Ég  hefði þó getað komið mér undan vinnu ef ég hefði verið nógu spennt fyrir að hitta hann. Hann verður smá pirraður og segir að við ættum að finna annan tíma til að hittast í staðinn. Ég segi að við ættum að gera það.

 

Ég hef ekki samband, hann hefur ekki samband.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!