KVENNABLAÐIÐ

Kristín Hildur: „Ég verð að deyja á undan“ – KVÍÐI

1779340_10205237181236104_5561984596703565459_n-149x300
Kristín Hildur

Það kannast örugglega flestir við hugsanir á borð við: „Hvað geri ég þegar mamma og pabbi eru dáin“ en fyrir okkur eru foreldrar okkar ódauðlegir. Við vitum hvernig það er að missa einhvern, það er sárt, þyngslin sem við þurfum að bera eru yfirþyrmandi sorg, reiði og ringulreið.

Ég hef sjálf misst alltof marga miðað við hvað ég er gömul, ekki það að aldur skipti einhverju máli, en í fyrra missti ég fimm vini, tvo á sömu helginni sem tóku sitt eigið líf. Það kemur örugglega engum á óvart að það ár endaði með taugaáfalli. Út frá taugaáfallinu urðu sjúkdómarnir sem lágu í dvala mjög ánægðir að fá að koma upp á yfirborðið og gera mér lífið leitt.

Á þessum tímapunkti skildi ég ekki hvað hafði gerst, af hverju langar mig að deyja, af hverju finn ég til í öllum líkamanum, af hverju er ég svona þreytt og svo framvegis. Ég var með milljón spurningar sem enginn gat svarað fyrr en ég fór á Heilsustofnun í Hveragerði þar sem ég fékk að vita á mjög stuttum tíma hvað væri nákvæmlega að.

Ég fékk taugaáfall, öll áföllin urðu til þess að ég þróaði með mér áfallastreituröskun, þunglyndi, OCD (Áráttu-og þráhyggjuröskun) og ADHD (Ofvirkni og athyglisbrestur). Ég veit að þið trúið því ekki hvað það var gott að fá svör, fá greiningu og 100% stuðning.

En það sem þessi reynslusaga snýst um er OCD og hvernig ég upplifi þann sjúkdóm. Við upplifum hann ekki eins og næsti maður, útgáfurnar eru misjafnar eftir persónuleika. Flestir sjá fyrir sér OCD manneskju sem er alltaf að þrífa eða þarf að slökkva ljósið 8 sinnum en það er bara brot af því sem er þarna úti.

Persónulega þá finnst mér þráhyggjan 100 sinnum verri en nokkuð tímann áráttan. Þráhyggjan er stundum svo mikil að mig langar að taka ocd-2012-headmitt eigið líf og hausinn á mér segir að það sé frábær hugmynd af því að það yrði öllum sama. Þráhyggjan hjá mér snýst fyrst og fremst um dauðann og ímyndanir um hvernig þessi og þessi mundi líta út í kistu, hundurinn minn er allur stífur af því að hann dó um nóttina og alls konar svona ógeðslegar hugsanir sem ég losna stundum ekki við nema að tala um það við mömmu mína eða pabba. Um leið og ég segi frá þessu og heyri í sjálfri mér þá veit ég hvað þetta er mikil vitleysa og ég ætti ekki að vera að hugsa um svona.

Ég er á lyfjum við OCD sem heita Anafranil og ég tek stærsta skammt sem hægt er að taka, því mitt OCD er mjög alvarlegt. En því miður þá verður þráhyggjan stundum sterkari og heltekur mig og mig langar að segja ykkur frá seinasta sólarhring.

Bróðir minn var í heimsókn og við sátum við eldhúsborðið með mömmu okkar, ég man ekki alveg hvernig þessi setning kom upp á yfirborðið en ég sagði: „Ef ég dey á undan öllum þá eiga stelpurnar að skipta á milli sín skartgripunum mínum (Sem sagt mágkonur mínar)“, og um leið og ég sagði þetta þá fannst mér allt svo raunverulegt, ég verð að deyja á undan. „Ég verð að deyja á undan öllum“ er búið að vera fast í hausnum á mér síðan í gær. Tilfinningin er yfirþyrmandi, ég er búin að vera óróleg, hrædd, virkilega kvíðin og líður eins og ég gæti sprungið…og ég sprakk. Ég gjörsamlega sprakk áðan og sagði mömmu minni frá þessum hugsunum og ég grét og grét af hræðslu við að einhver mundi deyja á undan mér.

Kristín Hildur ásamt móður sinni
Kristín Hildur ásamt móður sinni

Hugsunin mín var sú að ef ég dey á undan þá þarf ég ekki að ganga í gegnum það að missa einhvern og af því ég er yngst, þá tæknilega ætti það að vera þannig að ég dey seinast, en lífið er ekki þannig, fyrir manneskju með svona mikla þráhyggju er óvissan um framtíðina skelfileg. Eftir mikinn grátur og samtalið við mömmu mína leið mér mun betur en hugsunin er ennþá til staðar en ekki jafn yfirþyrmandi og þakka ég móður minni fyrir það. En eins og ég sagði áðan þá er þráhyggja til í mörgum útgáfum en allir sem þjást af OCD geta þó örugglega á einhvern hátt tengt við þessa sögu.

Ef þú þjáist af OCD og veist ekki hvert eða hvernig þú átt að snúa þér þá mæli ég með að þú leitir þér hjálpar annað hvort á bráðamóttöku geðdeildar eða Heilsustofnun Hveragerði. Að vera með OCD er ekki bara það að vera snyrtilegur og duglegur að þrífa, þessi sjúkdómur getur eyðilagt líf svo margra og jafnvel endað með sturlun eða dauða.

Ef þú hefur einhverjar spurningar í sambandi við þessa grein þá getur þú haft samband við mig í gegnum e-mailið mitt sem er kristinhildur@kvidi.is

Gangi þér vel.

– Kristín Hildur

Pistill Kristínar Hildar birtist upprunalega af vefsíðunni KVÍÐI – kvidi.is, en vefsíðan er vettvangur er fyrir fólk og aðstandendur þeirra sem glíma við kvíða og þunglyndi. Á vef KVÍÐA er hægt að finna heilu fjöllin af skemmtilegu og fræðandi efni, allt frá fræðslu og pistlum og til reynslusagna fólks. 

kvidi.is er á Facebook

kvidi

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!