KVENNABLAÐIÐ

Kæra Deitbók: Sá sem vildi særa

Kæra Deitbók, – ég hef aldrei verið mikið fyrir það að kynnast einhverjum nýjum í gegnum tölvur og öpp.  Frekar gamaldags þegar kemur að þessu.  Hef líka alltaf verið lúmskt hrædd við þetta.  Núna þegar allir sem eru á lausu virðast vera með einhver stefnumótaöpp í símanum eru líkurnar á því að þú rekist á prófíl frænda þinns, æskuvinar eða pabba þíns orðnar frekar miklar.  Mér hefur bara einfaldlega fundist þetta of vandræðalegt til að taka þátt í þessu.

Hins vegar þá er ég nú stödd erlendis þar sem ég þekki afskaplega fáa, af hverju ekki að vera pínu með á þessari plánetu og taka þátt í þessu til að kynnast fleirum?  

Ég náði í Tinder og renndi  kæruleysislega í gegnum alls kyns prófíla.  Ég henti þeim strax til vinstri sem voru með t.d. sólgleraugu innandyra, óskýrar myndir, bara mynd af hundinum sínum o.s.frv. en öðrum til hægri; þeim sem virtust vera efni í eitthvað.  Mér fannst þetta vera svolítið eins og að skoða matseðil á veitingastað.  Í staðinn fyrir úrval af réttum erum við með úrval af karlmönnum, sett upp á þægilegan hátt svo við getum valið það sem okkur líst best á.  Verst að yfirleitt þarf maður að ákveða sig út frá mjög takmörkuðum upplýsingum.  Þetta er svona eins og ef það stæði bara „kjúklingur“ eða „fiskur“ á matseðlinum en ekkert hvað er meira í þeim rétti eða hvað fylgir þeim.  Já, ekki er þetta versta leiðin til að kynnast einhverjum en klárlega þarftu að fara í gegnum hafsjó af forréttum áður en þú kemur að aðalréttinum.

Ég fæ fljótt þó nokkrar tengingar á Tinder og meðal þeirra var einn ótrúlega myndarlegur sem er í sama bæ og ég.  Við skulum kalla hann Lúkas. Svo Lúkas byrjar strax að spjalla við mig og kemur þá í ljós að hann er bara hér að hitta foreldra sína í nokkra daga en býr töluvert lengra frá.  Við komum okkur saman um að hittast á veitingastað í göngufæri strax sama kvöld og við byrjum að spjalla!  Ég veit, kannski smá áhættusamt en ég var orðin spennt að kynnast nýju fólki.

Höldum okkur samt á meðal fólks!

Ég var komin þangað á undan honum.  Var ekki viss hversu langan tíma það tæki að labba og þráði það að fara út í fínum fötum og fallega máluð svo var væntanlega aðeins of spennt líka.  Hann kemur síðan aðeins of seint, en hringir á leiðinni og lætur vita að honum hafi seinkað aðeins.  Ég veit ekki af hverju en mér líður hálf skömmustulega að vera komin þangað á undan honum.  Eins og stelpan eigi ekki að vera fyrst á svæðið.  Það batnar ekki við það að hann síðan bendir á að honum finnist það krúttlegt.

Við sitjum lengi og spjöllum, alveg þar til staðurinn lokar.  Reyndar er það meira hann sem spjallar, um sjálfan sig og sín frábæru afrek í lífinu. Inn á milli slettir hann inn í ræðuna sína að ég sé afskaplega falleg, yndisleg og heillandi.  Alveg þannig að ég veit ekki hvernig ég ætti að svara ef ég kæmist að til að svara.  Ekki er ég tilbúin að ausa yfir einhvern hrósi á fyrsta deiti.

Hann er líka mikið fyrir snertingu greinilega þar sem öll tækifæri til að snerta mig eru nýtt til hins ítrasta, hendin á mér, mittið á mér, lærið á mér … og eftir á hugsa ég hversu mikil snerting sé eðlileg á fyrsta stefnumóti og kemst eiginlega að því að fyrir mig virkar það vel að snerta handarbakið kannski einu sinni eða úlnliðinn en að annað sé of mikið, sérstaklega lærið og mittið.  

Of mikil snerting á fyrsta stefnumóti virkar á mig eins og deitið hafi bara einn tilgang, að ná mér úr fötunum eins fljótt og hægt er, eða að gaurinn sé desperate”.  Engin snerting eða engin önnur merki um kynferðislegan áhuga getur síðan orðið til þess að gaurinn endar sem þessi vinur sem hefur alltaf laumulegan áhuga á þér og hættir síðan að tala við þig þegar hann eignast kærustu þar sem þið voruð í raun aldrei bara vinir í hans augum.

Eftir að veitingastaðurinn lokar förum við í göngutúr í garðinum sem er þar nálægt.  Ég veit ekki hvort vínið var byrjað að segja til sín eða hvort ræða hans um sjálfan sig hafi virkað eins og heilaþvottur því þarna náði hann einum kossi frá mér og kannski fleiri en einum smekklegum litlum kossum.  Engin tunga þó hann hafi alveg reynt á það að troða henni inn, var bara einfaldlega ekki viss um hvort ég hafði jafn mikinn áhuga á honum og hann hefði á sjálfum sér.

Hann fylgir mér heim og ég segi honum að ég sé þreytt.  Þegar ég leggst á koddann fæ ég SMS: „Góða nótt fallegust, ég verð að hitta þig aftur á morgun þar sem ég fer daginn eftir það“.

Nóg í bili, safaríkt framhald fljótlega!

Þín, Vaka Nótt

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!